Um vefinn

Um verkefnið

Átthagafræði Bláskógabyggðar

Þetta verkefni sem hér birtist heitir Átthagafræði Bláskógabyggðar. Innleiðing upplýsingatækni og miðlunar í grunnskóla með umfjöllun um átthaga nemenda að leiðarljósi.

     Verkið er tvíþætt; annars vegar fræðileg ritgerð og hins vegar vefur sem birtir nemendaverkefni, kennslu á þrjú forrit, tengla á ýmislegt um upplýsingatækni og tengla sem tengjast sveitarfélaginu Bláskógabyggð.
     Verkefnið byggir á hugmyndum um kennslu í upplýsingatækni og nýtingu hennar í skólastarfi en einnig á hugmyndum um átthagafræði. Einnig er verkefninu ætlað að vera innan ramma grunnskólalaga og byggja á Aðalnámskrá grunnskóla. Verkefnið er hugsað, frá upphafi, til þess að koma á kennslu og notkun í upplýsingatækni og miðlun í grunnskóla, einkum í Grunnskóla Bláskógabyggðar. Auðvelt á að vera að yfirfæra verkefnið og nýta það breytt fyrir aðra grunnskóla eða sveitarfélög. Verkefnið byggir einnig á hugmyndum um fullorðinsfræðslu og hvaða leiðir eru færar til að hvetja kennara til að efla færni sína í upplýsingatækni og innleiða hana í grunnskólastarfið.
     Verkefninu er skipt í fjórar meginstoðir. Ritgerð sem fjallar um fræðilegar forsendur fyrir kennslu í upplýsingatækni og miðlun, miðlalæsi og sköpunarþörf. Þar er sjónum beint að því hvað kemur sér vel fyrir nemandann í náminu og forsendur fyrir því að hann geti unnið verkefnin og nemendaverkefnin sem fylgja. Nemendaverkefnin eiga að gefa hugmyndir um það hvernig hægt er að samþætta og flétta upplýsingatækni inn í aðrar námsgreinar grunnskólans. Þar er einkum beint sjónum að því að verkefnin snúi að heimabyggð nemenda og styðjist við Aðalnámskrá grunnskóla. Segja má að þriðja stoðin sé fyrstu skrefin í kennslu á forrit. Þar eru kynnt þrjú forrit sem eru einföld í notkun og talin góð fyrir byrjendur. Fjórða stoðin er vefur. Höfundur hefur sett hann upp á léninu http://grblaskogabyggd.is/atthagafraedi.
     Markmið verkefnisins Átthagafræði Bláskógabyggðar er tvíþætt. Annars vegar að fá nemendur í Grunnskóla Bláskógabyggðar, til að búa til með hjálp upplýsingatækninnar og setja á Netið, ýmiss konar efni um átthagana. Hins vegar að benda á leiðir til þess að efla grunnskólakennara í endurmenntun á sviði upplýsingatækni og miðlunar.
     Verkefnið er ennfremur hugsað, til lengri tíma litið, sem heimild um sögu Bláskógabyggðar. Einnig gæti vefurinn orðið eitt af andlitum sveitarfélagsins út á við. Þá má sjá fyrir sér að eldri nemendur skólans vinni verkefni á erlendum tungumálum og þannig geti vefurinn orðið ferðamennsku í sveitarfélaginu að liði í að kynna sveitarfélagið. Þá má ætla að t.d. brottfluttir, ættingjar sveitunga og nýir sveitungar hefðu gaman af að glugga í vefinn. Með tímanun á vefurinn að þróast og vaxa, verða safn til fróðleiks og skemmtunar.

Go to top