Um verkefnin

Verkefni

Grunnskólinn starfar eftir grunnskólalögum frá menntamálaráðuneytinu. Menntamálaráðuneytið gefur út til viðbótar leiðbeinandi lýsingu á því sem vinna á í grunnskólunum. Sú lýsing er Aðalnámsskrá grunnskóla – almennur hluti, einnig eru gefnar út undirnámsskrár fyrir mismunnandi fög. Skólar hafa svigrúm innan námskránna til að móta eigin skólanámsskrá. Þar hafa þeir möguleika á að búa til sína eigin skólastefnu byggða á námsskrám. Þeir geta útfært hana á ýmsa vegu og tekið fleiri þætti inní eins og hugmyndir fræðimanna um hvernig reka eigi skóla.

Önnur grein grunnskólalaganna er höfð að leiðarljósi í verkefninu um Átthagafræði Bláskógabyggðar. Þar er leitast við að nemendur sjái kostina við eigin heimabyggð og verði stoltir af henni. Þau læri á umhverfið, átthagana í kringum sig. Jafnframt kynnist þau því að útbúa fjölbreytt efni um það, geri þau forvitin um að vita meira. Þau þurfa að hafa samstarf við aðra í upplýsingaleitinni og vinna í hóp með skólafélögunum. Einnig ætti verkefnið að efla tengsl nemenda við heimahagana og þegar þau afla upplýsinga þurfa þau að leita í smiðju þeirra eldri. Verkefnið byggir því í heilmikið á annari grein grunnskólalaganna.

Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla þarf hann að hafa undirstöðufærni í kjarnagreinum en hann þarf einnig að hafa þekkingu á og vitund um hvaða aðferðum hann getur beitt, hvaða aðferðum hann getur tileinkað sér og hafi fengið þjálfun í að beita aðferðunum. Þetta á t.d. við í upplýsingatækni – tækni framtíðarinnar.

Til þess að hrífa nemendur með sér þurfa þeir að fá skýr skilaboð annars vegar frá kennaranum og hins vegar frá námsefninu sem þeir fara eftir. Skilaboðin snúast um það sem er lagt fyrir þá, þeir þurfa að vita hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.

Nemendur þurfa að:

  • Geta tileinkað sér nýja tækni og nýtt verklag
  • Geta farið eftir fyrirmælum verkefna en jafnframt nýtt sköpunargáfuna til að útfæra verkefnið
  • Geta unnið sjálfstætt og með öðrum
  • Geta haft gleði og ánægju af því sem þeir eru að fást við
  • Séu tilbúnir að deila eigin efni með öðrum, leyft örðum að njóta þess

 Ef nemendum er þetta ljóst í upphafi má vænta þess að eftirleikurinn verði auðveldari fyrir þá. Jafnframt því að nemandinn fái skýr og afmörkuð skilaboð, þarf einnig að vekja áhuga nemandans á verkefninu. Hann þarf að sjá tilganginn með því og hann þarf að sjá fyrir endalokin á verkefninu, sjá til hvers það leiðir.

Go to top